16.6.2007 | 21:00
Heilbrigðiskerfi hvað ?
Margt búið að gerast þessa viku. Fór á alveg frábært kaffinámskeið hjá Te og Kaffi með saumaklúbbnum því þessar elskur voru ekki alveg nógu góðar í kaffiuppáhellingu og ég kaffikerlinginn var ekki sátt. Námskeiðið var mjög skemmtilegt í alla stað, fróðlegt og bragðgott .
Tengdapabbi veiktist og var fluttur á bráðamóttökuna mjög veikur. Hann fékk náðasamlegast að dvelja á sjúkrahúsi í 10 tíma þá var honum hent heim fárveikum. Hann var síðan fluttur enn veikari 6 tímum eftir að hann kom heim og þá var það frekjan ég sem tók að mér að annast málið. Hann var svo sendur heim eftir tæpan sólarhring á sjúkrahúsi. Aumingja hjúkkan sem hringdi í mig og bað um að hann yrði sóttur fór alveg í hnút þegar ég rakti úr henni garnirnar varðandi karlinn. Og þegar ég kom svo að sækja hann kom hún og afsakaði sig. Kerfið hreinlega getur ekki leyft fólki að liggja á sjúkrahúsi sé það mjög veikt og hafi ekki heimilisaðstöðu til að liggja heima. Hjúkkan getur bara ekkert gert að þessu en þeir sem stjórna þyrftu að koma sér neðar í kerfinu og finna fyrir því til að skilja fólk. Tengdó er á batavegi og ég á 24 tíma vakt.
Kári minn er líka brattur eftir brotið en það þurfti að kíkja á gipsið og laga teygjubindið áðan og slysó hafði bent mér á Heilsugæsluna. Ok ég bjáninn, hringdi á Læknavaktina og spurði hvort ekki væri hægt að kíkja á hann. Svarið sé ég fékk : "Getur þú ekki gert þetta sjálf".
Skyldi hún vera skyggn blessuð hjúkkan á Læknavaktinni? Jú jú víst get ég gert þetta sjálf eins og flest annað ekki spurning. Ég brá mér því í næsta apótek, keypti það sem mig vantaði til verksins og afgreiddi málið pent.
Ég hallast á þá skoðun að heilbrigðiskerfið okkar sé eitthvað að versna. Á fólk bara að gera allt sjálft? Hver ber svo ábyrgðina á að hlutirnir hverjir svosem þeir eru séu í lagi?
Nei sko ég held við ættum að einkavæða slysó.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.